Skip to main content

Háskóla Íslands

Veldu tungumálið

Samvinna um endurhönnun með skólum – "Komið saman til að breyta rýmum skóla" (CoReD)

Rannsóknir sýna að vel hönnuð námsrými hafa áhrif á velferð, áhuga og ástundun nemenda og styðja á þýðingarmikinn hátt við flutning á milli skólastiga. Það er til bóta að auka vitund eða ígrundun skólafólks um rými skóla og auðveldar því að móta námsumhverfi og starfshætti. Ef ný eða endurhönnuð húsakynni skóla eiga að þjóna vel hlutverki sínu þurfum við fagfólk í menntun sem áttar sig á áhrifum rýma og er gert fært að taka á upplýstan hátt þátt í umræðum og breytingum.

Framlag skólanotenda gæti og ætti að ná frá mati á eigin kennslustofu eða skólarými til breytinga á staðbundnum rýmum og starfsháttum með hliðsjón af menntastefnu sem snertir húsakynni og setur skólans.

Meginmarkmið þessa verkefnis er að ráðast í aðgerðir og þróa bjargir sem leiða til aukins skilnings á umhverfi í skólastarfi, í fyrsta lagi með fagfólki á þess eigin starfsvettvangi en í framhaldi og víðara samhengi með því að hafa áhrif á umræðu og stefnumótun í einstökum landshlutum eða á landsvísu. Starf á vegum verkefnisins og afrakstur af því munu auðvelda kennarum og stjórnendum skóla að fást á skilvirkari hátt við námsumhverfi og valdefla þá í ákvörðunum um húsakynni, efnislegar bjargir og stafræna kosti.

Rannsakendur CoReD hafa valið og mótað aðferðir og sérhæfðar lausnir til nota við eigin rannsóknir þegar unnið er með kennurum, skólastjórnendum og nemendum við þróun á námsumhverfi. Markmiðið núna er að þróa alþjóðlega prófaðar bjargir eða gögn sem fagstétt kennara getur notað endurgjaldslaust og hægt er að beita og nota til greiningar án stuðnings rannsakenda við háskóla. Þessu markmiði verður náð með samstarfi þátttakenda í verkefninu og skólafólks um prófanir á verkfærum í sex Evrópulöndum. Verkfæri, lýsingar á rannsóknartilvikum og notendaleiðbeiningar sem af þessu spretta verða þýdd á nokkur tungumál og lögð út á opið vefsetur til aflestrar í viðeigandi miðlum.

Saman munum við leiða umbætur í menntun með því að hjálpa skólasamfélögum að átta sig á þýðingu námsumhverfis og ráðast í upplýstar breytingar.

CoReD á Íslandi 

Skyldunámsskóli á Íslandi spannar 1. til 10. bekk eða 6 til 16 ára aldur. Flestir opinberir skólar á grunnskólastigi ná yfir alla tíu árgangana. Um 98% barna sækja leikskóla frá um 2ja til 5 ára aldurs og um 85% ungmenna sækja framhaldsskóla í þrjú til fjögur ár að skyldunámi loknu. Saga almannaskóla og hönnunar á skólabyggingum á Íslandi er hins vegar tiltölulega stutt og nær að segja má frá síðbúinni iðnvæðingu við upphaf tuttugustu aldar til okkar tíma.

Elstu skólabyggingarnar enn í notkun voru hannaðar um eða eftir 1930 og bjuggu yfir mörgum nýjungum og rýmum til sérstakra nota, dráttum sem endurspegla félagslegan, menningarlegan og kennslufræðilegan metnað. Þær voru engu að síður í grunninn byggðar á venjulegum kennslustofum af svipaðri stærð í röðum eftir göngum. Flestar skólabyggingar reistar alla tuttugustu öldina fylgdu þessu mynstri og voru byggðar á svipaðan hátt. Nokkrar áhugaverðar undantekningar frá þeirri reglu allt frá sjöunda og áttunda áratugnum til þúsaldarskiptanna mætti nefna þó að ekki verði staldrað frekar við þær hér.

Þýðingarmikil skil í menntastefnu og stjórn skólamála urðu þegar leið að nýrri þúsöld og höfðu róttæk áhrif á hönnun skólabygginga á fyrstu árum tuttugustu og fyrstu aldar allt til þessa dags. Ný löggjöf kallaði á lengdan skóladag og einsetna skóla og þar með aukið rými og fleiri skólabyggingar. Menntastefna um einstaklingsmiðað nám, samvinnu nemenda, teymisvinnu og sveigjanlegt skólastarf kom fram um svipað leyti, einkum á sveitarstjórnarstigi, og setti mark sitt á hönnun nýrra skólabygginga sem byggðar hafa verið frá fyrstu árum nýrrar aldar og fram á þennan dag. Skólabygginar reistar á síðustu tveimur áratugum hafa oftast verið hannaðar til að greiða fyrir teymisvinnu kennara, bjóða upp á sveigjanleg rými fyrir margvísleg not og mismunandi hópastærðir, og styðja við ýmis tengsl út í samfélagið. Breytileiki, sveigjanleiki og opin námsrými hafa verið talin ýta undir einstaklingsmiðun og samvinnu en lokuð og hefðbundin rými ekki. Þessi nýja nálgun við þróun skóla hefur kallað fram hönnun sem leggur áherslu á sveigjanleika, flæði, opnun, félagslega kviku og teymisvinnu. Klasar kennslurýma, gagnsæ eða færanleg skil og opin rými sem bjóða upp á ýmiss konar gagnverkanir í sveigjanlegum hópum virðast koma í stað hefðbundinnar hönnunar á kennslustofum meðfram fastmótuðum göngum (Anna Kristín Sigurðardóttir og Torfi Hjartarson, 2011, 2016, 2018).

Íslenskir skólar sem taka þátt í CoReD eru almennt í skólabyggingum frá tuttugustu öld en hafa ráðist í endurhönnun á húsnæði eða námsumhverfi. Starfslið þeirra á hverjum stað er áhugasamt um að kanna mismundandi leiðir til að nota bæði eldri og endurhönnuð rými til náms og kennslu.

Tækið sem íslenskt teymi CoReD þróaði er Matstæki um þróun skólastarfs.

Íslensku

Háskóli Íslands er opinber rannsóknarháskóli, stofnaður 1911 og hefur bækistöðvar í miðborg Reykjavíkur, höfuðborg Íslands. Hann er framsækin mennta- og vísindastofnun þekkt fyrir rannsóknir sínar. Sem nútímaleg, margslungin og ört vaxandi stofnun býður skólinn upp á tækifæri til menntunar og rannsókna á meira en 400 námsbrautum í grunn- og framhaldsnámi á flestum sviðum vísinda og mennta sem skipað er á fimm fræðasvið.

Háskólinn hefur sett sér sem langtímamarkmið að komast í fremstu röð háskóla í heiminum og beita alþjóðlega viðurkenndum gæðastöðlum í öllu mati á starfsemi sinni. Hann er rannsóknarháskóli og leggur ríka áherslu á gæði rannsókna. Háskólinn rekur tugi rannsóknarstofnana og miðstöðva sem eru farvegur fjölbreytilegra rannsókna á mörgum sviðum. Leiðandi vísindamenn taka þátt í rannsóknum skólans og þar á sér stað þýðingarmikil nýsköpun þekkingar á hverjum degi. Times Higher Education (2020) telur Háskólann í hópi 351–400 bestu háskóla heims.

Nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskólans byggt á fimm fræðasviðum og meira en 20 deildum tóku gildi árið 2008 þegar Háskólinn og Kennaraháskóli Íslands runnu saman á aldarafmæli þess síðarnefnda. Að auki rekur skólinn fjölda rannsóknar- og þjónustustofnana. Sjö fræðslumiðstöðvar tengdar Háskólanum eru reknar í dreifðum byggðum út um landið og margar þeirra sinna rannsóknum byggðum á staðbundinni þekkingu. Háskólinn lítur svo á að honum beri að efla vísindalega þekkingu og rannsóknir um landið allt og starfsemi hans vex hröðum skrefum.

https://www.hi.is/

Um Menntavísindasvið

Menntavísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands. Sviðið er leiðandi stofnun á landsvísu í menntavísindum og velferð og gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki hvað snertir menntun kennara, félagsráðgjafa, tómstundakennara, íþrótta- og heilsufræðinga, auk fræðafólks í uppeldis- og menntunarfræðum. Margbreytilegar og metnaðarfullar rannsóknir fram á sviðinu með það fyrir augum að skapa nýja þekkingu til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Menntavísindastofnun ásamt sviði vísinda og nýsköpunar býður upp á margvíslega þjónustu til stuðnings rannsakendum, svo sem við gerð umsókna um innlenda og alþjóðlega styrki úr vísindalegum samkeppnissjóðum. Fræðafólk á sviðinu tekur virkan þátt í víðtækum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og samstarfsnetum vítt og breitt um heiminn. Meira en tuttugu rannsóknarstofur starfa á sviðinu og hafa að sameiginlegu markmiði að efla og kynna rannsóknir á sínu efnissviði með því að auka samstarf rannsakenda, þar á meðal þverfaglega og alþjóðlega samvinnu og miðla þekkingu út í samfélagið eftir ýmsum leiðum, eins og með ráðstefnum, málstofum og menntabúðum.

Menntavísindasvið: https://www.hi.is/menntavisindasvid

Íslenska rannsóknarteymið

Anna Kristín Sigurðardóttir

Anna Kristín er prófessor í þróun skólastarfs og stjórnun menntastofnana við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún stýrir sem stendur Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs. Hún hefur lokið B.Ed.-námi í kennslu, M.Ed.-námi í sérkennslu og doktorsnámi í stjórnun menntastofnana við University of Exeter í Bretlandi. Hún vann að þróun skólastarfs á vegum Reykjavíkurborgar og hefur mikla reynslu af rannsóknum á þróun skólastarfs og menntunar með sérstakri áherslu á skóla sem faglegt lærdómssamfélag og möguleg áhrif umhverfis á kennslu og nám.

Upplýsingar á vef Háskóla Íslands: https://www.hi.is/starfsfolk/aks

Tölvupóstfang: aks@hi.is

Torfi Hjartarson

Torfi er lektor í kennslufræði, hönnun námsefnis og upplýsingatækni í skólastarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk B.Ed.-námi frá Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og meistaranámi um hönnun námsgagna og kennslukerfa frá University of Oregon í Bandaríkjunum. Hann var einn stofnenda Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun, leiddi Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands og átti um skeið sæti í Umverfis- og skipulagráði Reykjavíkur. Rannsóknir hans hafa beinst að skapandi notkun á stafrænum miðlun og stafrænni tækni en einnig þýðingu bygginga og umhverfis fyrir sveigjanlegt skólastarf og verkefnamiðað nám.

Upplýsingar á vef Háskóla Íslands: https://www.hi.is/starfsfolk/torfi

Tölvupóstfang: torfi@hi.is